Betri lýðheilsa
Íþróttahús
Reykjavíkurborg áformar að byggja íþróttamannvirki fyrir rúma 20 milljarða króna á næstu 10 árum og er þar byggt á tillögum stýrihóps um stefnu í íþróttamálum sem verður höfð til hliðsjónar við undirbúning 10 ára fjárfestingaráætlunar Reykjavíkurborgar.
Dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti
Umhverfis- og skipulagssvið og íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar vinna að þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti í samráði við fimleikadeild ÍR, dansskóla með starfsemi í hverfinu, félög dansara og íbúaráð Breiðholts.

Betri fimleikaaðstaða fyrir Fylki
Íþrótta- og tómstundasvið hefur til skoðunar hugsanlega stækkun fimleikaaðstöðu Fylkis í Norðlingaholti.

Fjölnota knatthús hjá KR
Gengið verður til viðræðna við KR um byggingu fjölnota knatthúss á grundvelli fyrri viljayfirlýsingar KR og borgarinnar. Kannaður verði vilji Seltjarnarness til samstarfs um verkefnið, sbr. samstarf Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um fimleikahús á Seltjarnarnesi.

Hugmyndir um nýtt íþróttahús í Laugardal
Íþrótta- og tómstundasvið, Íþróttabandalag Reykjavíkur, skóla- og frístundasvið, Knattspyrnufélagið Þróttur og Glímufélagið Ármann munu fara yfir fyrirliggjandi þarfagreiningu og hugmyndir um nýtt þróttahús í Laugardal.

Uppbygging hjá Fjölni í Grafarvogi
Skoðaðir verði, með Fjölni og fleirum, valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi.

Íþróttamannvirki hjá Val á Hlíðarenda
Gengið verður til viðræðna við Knattspyrnufélagið Val um hugmyndir félagsins um frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins á Hlíðarenda. Gerð verði ítarleg þarfagreining, kostnaðar- og rekstraráætlun vegna hugmynda um ný mannvirki.

Víkingur bjóði íþróttaiðkun í Safamýri
Ákveðið hefur verið að Knattspyrnufélagið Víkingur muni þjóna Safamýrarhverfinu með íþróttastarf þegar Knattspyrnufélagið Fram hefur flutt starfsemi sína í Úlfarsárdal. Borgarráð leggur til að samhliða gerð þjónustusamnings við Víking vegna Safamýrarsvæðisins verði skoðaðar hugmyndir um endurnýjun og þróun íþróttamannvirkja í Víkinni, sem og eignarhald og rekstur þeirra mannvirkja.

Siglingaraðstaða í Fossvogi
Teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaaðstöðu í Fossvogi og nýrri byggð í Skerjafirði.

Skautahöllin í samstarfi við Íþróttabandalag Reykjavíkur
Gerð verði ábatagreining á valkostum varðandi áframhaldandi samstarf við Íþróttabandalag Reykjavíkur um rekstur Skautahallarinnar og stækkun hennar. Í kjölfarið verði tekin afstaða til mismunandi leiða og frekari samninga við Íþróttabandalag Reykjavíkur um áframhaldandi rekstur og stækkun Skautahallarinnar í Laugardal.

Tennishús í Laugardal
Skipaður verði starfshópur um yfirferð á fyrirliggjandi þarfagreiningu vegna tennishúss í Laugardal með fulltrúum Íþróttabandalags Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur og tennisfélaga.
