Íþróttamiðstöð Úlfarsárdal
Úlfarsárdalur er stórt útivistarsvæði sunnan Úlfarsfells. Samnefnd íbúðabyggð liggur í norðvesturhluta dalsins en sunnan dalsins er Grafarholt. Notkun svæðisins til útivistar fer ört vaxandi, og mun aðsóknin aðeins aukast með tilkomu nýrrar og glæsilegrar íþróttamiðstöðvar. Við hönnun er miðað við kröfur vegna BREEAM umhverfisvottunar sem gefur kost á svokallaðri grænni fjármögnun framkvæmdanna með grænum skuldabréfum.
Aðstaða
Íþróttamiðstöðin samanstendur af fjölnota íþróttahúsi, áhorfendastúku fyrir aðalleikvang í knattspyrnu, útisundlaug og vatnsrennibraut, minni íþróttasölum, félags- og þjónustuaðstöðu fyrir starfsfólk, þjálfara og félagsmenn, búningsrýmum ásamt samkomusal og fundaraðstöðu. Íþróttamannvirkin munu þjóna félagsmönnum íþróttafélagsins Fram og íbúum Grafarholts og Úlfarsárdals. Íþróttasalur ásamt fylgirýmum verður nýttur af skólum í hverfinu.

Öll þjónusta í nærumhverfi
Íþróttamiðstöðin er austasti hluti bygginga við Úlfarsbraut 122-126 í Úlfarsárdal. Í vestari hluta bygginganna eru leik- og grunnskóli ásamt frístundamiðstöð, menningarmiðstöð og sundlaug sem nú eru ýmist fullbyggð eða í uppbyggingu. Öll mannvirkin eru í miðjum Úlfarsárdal og liggja vel við nærliggjandi byggð með góðum samgöngutengingum fyrir gangandi, hjólandi og akandi.