Laugardalur
Laugardalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda einstaklega heppilegur fyrir útiveru, skjólgóður og gróðursæll með vel skipulagða göngu- og hjólastíga. Dalurinn er jafnframt ein meginmiðstöð íþróttaiðkunar í Reykjavík og er þar að finna Laugardalshöllina, Laugardalsvöllinn, Laugardalslaugina og Skautahöll Reykjavíkur. Þá er Grasagarður Reykjavíkur og Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn í Laugardal.
Enn betri Laugardalur
Á komandi árum er mikil uppbygging fyrirhuguð í Laugardal á sviði lýðheilsu. Til þess að móta ramma utan um verkefnin er vinna hafin við heildarendurskoðun á skipulagi dalsins þar sem einnig verður farið yfir stöðu mannvirkja borgarinnar, viðhaldsþörf og mögulegar nýframkvæmdir. Á meðal helstu verkefna borgarinnar í Laugardal á komandi árum er enduruppbygging Laugardalslaugar, nýtt Vísinda- og upplifunarsafn, viðbygging við Skautahöllina, tennishús og nýr gervigrasvöllur.
Nýtt íþróttahús
Nýtt íþróttahús fyrir inniíþróttir mun rísa í Laugardal. Fyrstu skref verkefnisins eru að rýna fyrirliggjandi hugmyndir um nýtt íþróttahús í Laugardal með tilliti til notkunar fyrir skóla, íþróttafélög og almenning. Þá verða skoðuð samlegðaráhrif verkefnisins við hugmyndir um þjóðaríþróttahöll fyrir inniíþróttir í Laugardal.

Nýr þjóðarleikvangur
Árið 2018 skipuðu ríkið og Reykjavíkurborg starfshóp til að fara yfir hugmyndir um þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu. Á meðal tillagna starfshópsins var að stofnað yrði einkahlutafélag um undirbúning verkefnisins og í framhaldinu var einkahlutafélagið Þjóðarleikvangur ehf. stofnað. Tilgangur félagsins er að starfa að undirbúningi að byggingu þjóðarleikvangs í Laugardal, þ.á.m. standa að útboði, leggja til verkefnaskipulag og framkvæmd, gera kostnaðaráætlun og fylgja verkefninu eftir þannig að það verði framkvæmt á sem hagkvæmastan hátt.