Skíðasvæði
Sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær og Garðabær, sem sameiginlega reka skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins samþykktu árið 2018 áætlun um endurnýjun á skíðasvæðunum. Ráðist verður í endurnýjun og uppsetningu þriggja stólalyfta í Bláfjöllum og endurnýjun stólalyftu í Skálafelli. Ennfremur verður settur upp búnaður til snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Samhliða þessum verkefnum verður unnið að áframhaldandi uppbyggingu á skíðagöngusvæði og bættum aðstæðum fyrir skíðagöngufólk.
Framtíðarsýn
Þessi verkefni eru fyrri áfangi af tveimur við heildaruppbyggingu skíðasvæðanna sem byggja á tillögu að framtíðarsýn um uppbyggingu og rekstur þeirra til ársins 2030.
Bláfjöll og Skálafell
Í Bláfjöllum verða settar upp nýjar stólalyftur, Drottning og Gosi, og gerðar breytingar og aðlaganir á brautum og endastöðvum. Þá verður einnig sett upp notuð stólalyfta í Eldborgargil og ný toglyfta út Kerlingadal. Í Skálafelli verður sett upp notuð stólalyfta og nauðsynlegar breytingar gerðar á aðstöðu við endastöðvar.

Snjóframleiðsla
Að öllu óbreyttu verður farið í 1. áfanga snjóframleiðslu í Bláfjöllum; heimatorfan, Kóngsgil og Öxlin. 2. áfangi snjóframleiðslu verður í Skálafelli eða suðursvæði í Bláfjöllum.
Skíðagönguleiðir
Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu á skíðagöngusvæði með uppsetningu snjógirðinga, stika og merkinga, auk þess sem annar áfangi snjóframleiðslu nýtist til að treysta snjóalag á gönguleiðum og lengja tímabilið fyrir gönguskíðafólk.
