Grunnskólar
Reykjavíkurborg rekur nú 36 grunnskóla, þar af tvo sérskóla. Í þeim stunda um 14.000 börn og unglingar nám. Í skólastarfi er haft að leiðarljósi að börnum líði vel, að þeim fari stöðugt fram og að þau öðlist uppeldi og menntun fyrir líf og starf.
Látum draumana rætast
Öllum börnum og unglingum skal veita fjölbreytta menntun og reynslu til þess að skapa þeim jöfn tækifæri til að láta drauma sína rætast. Í skólum borgarinnar er unnið að því að öll börn lesi sér til gagns og gamans, afli sér þekkingar og öðlist skilning á samfélagi og náttúru. Þau sýni frumkvæði og tileinki sér skapandi og gagnrýna hugsun og heilbrigðan lífsstíl. Þá er lögð áhersla á snjallvæðingu í skóla- og frístundastarfi, í kennslu- og starfsháttum sem og valdeflingu barna og ungmenna í gegnum tækni og sköpun.

Verkefnin framundan
Á næstu árum mun borgin koma til með að stækka og þéttast. Því er nauðsynlegt að gera úttekt á þeim skólum sem nú þegar eru í borginni og ráðast í endurbætur, ásamt því að byggja skóla til að þjónusta ný hverfi.
Nýir grunnskólar
Það er mikill kostur að börn geti sótt helstu þjónustu eins nálægt heimili sínu og auðið er. Því verður ráðist mikla uppbyggingu í nýjum hverfum og á helstu þéttingarsvæðum borgarinnar. Meðal þess sem liggur fyrir er bygging nýrra skóla í Skerjafirði, Vogabyggð, Ártúnshöfða og Vatnsmýri.

Endurbætur á eldri skólum
Margar skólabyggingar í Reykjavík eru komnar til ára sinna og þörf á víðtækum endurbótum. Þá verður sérstakt framlag til stofnkostnaðar framhaldsskóla hluti af uppbyggingu næstu ára. Fjöldi verkefna sem snúa að endurbótum eru nú í bígerð.
- Viðbygging og endurbætur fjölda skóla, t.d. Vesturbæjarskóla, Austurbæjarskóla og Safamýrarskóla
- Endurnýjun mötuneyta í grunnskólum borgarinnar
- Færanlegar stofur
- Úttektarskýrsla um meiriháttar viðhald grunnskóla borgarinnar
- Kaup og endurbætur Vörðuskóla
- Úrbætur vegna öryggis- og aðgengismála í grunnskólum.