Græn borg

Reykjavík er blómleg, skemmtileg og heil­brigð borg sem verður kolefn­is­hlut­laus árið 2040.

Reykjavík stefnir að kolefn­is­hlut­leysi með því að draga hratt úr losun og byggja upp kolefn­is­bind­ingu. Þetta felur í sér breytta fram­leiðslu og ferla, breytta samgöngu­máta, breyttar neyslu- og matar­venjur – og auðvitað aukna endur­vinnslu. Græn og vistvæn Reykjavík sem mætir áskor­unum um lofts­lagsmál er einmitt sú borg sem við ættum að vilja skapa saman. Borg sem er í senn lifandi, skemmtileg, fjöl­breytt og réttlát.

Drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda

Grænni samgöngur, uppbygging á hringrás­ar­hag­kerfi og áhersla á vistvæn mann­virki verða í fyrir­rúmi í Græna planinu. Með nýsköpun að vopni stefnum við á að draga úr myndun úrgangs og losun vegna umferðar, efla staf­ræna þjón­ustu og vistvæn innkaup.

Eflum græn svæði og kolefnisbindingu

Græn svæði og tengsl við náttúru hafa umtals­verð jákvæð áhrif á andlega og líkam­lega heilsu fólks. Borgin mun bæði leggja áherslu á kolefn­is­bind­ingu, viðhald líffræði­legrar fjöl­breytni og að fegra græn svæði.