Græn borg

Reykjavík er blómleg, skemmtileg og heilbrigð borg sem verður kolefnishlutlaus árið 2040.
Reykjavík stefnir að kolefnishlutleysi með því að draga hratt úr losun og byggja upp kolefnisbindingu. Þetta felur í sér breytta framleiðslu og ferla, breytta samgöngumáta, breyttar neyslu- og matarvenjur – og auðvitað aukna endurvinnslu. Græn og vistvæn Reykjavík sem mætir áskorunum um loftslagsmál er einmitt sú borg sem við ættum að vilja skapa saman. Borg sem er í senn lifandi, skemmtileg, fjölbreytt og réttlát.
Drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda
Grænni samgöngur, uppbygging á hringrásarhagkerfi og áhersla á vistvæn mannvirki verða í fyrirrúmi í Græna planinu. Með nýsköpun að vopni stefnum við á að draga úr myndun úrgangs og losun vegna umferðar, efla stafræna þjónustu og vistvæn innkaup.

Eflum græn svæði og kolefnisbindingu
Græn svæði og tengsl við náttúru hafa umtalsverð jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Borgin mun bæði leggja áherslu á kolefnisbindingu, viðhald líffræðilegrar fjölbreytni og að fegra græn svæði.
