Aðrar aðgerðir í umhverfismálum
Til að stemma stigu við loftslagsvánni þurfa allir hlutar borgarinnar að starfa saman sem ein heild. Auk stærri áherslupunkta í umhverfismálum, rannsókna og úttekta á raunstöðu er fjöldi grænna og umhverfisvænna verkefna í vinnslu. Þar á meðal eru vistvæn mannvirki, LED væðing ljósa, hljóðvarnir, sjóvarnir og aðgerðaráætlanir flóðvarna.
LED væðing í götulýsingu
LED væðing götuljósa sparar umtalsverða orku og þurfa nýir lampar minna viðhald. Ljósmengun vegna götulýsingar verður einnig minni með betri stýringu á birtustigi og dreifingu ljóssins, en gerðar eru kröfur um að ekkert af ljósi fari upp fyrir lampann. Götuljósin munu því ekki lýsa upp í næturhimininn sem stuðlar að auknum myrkurgæðum og gerir íbúum kleift að sjá stjörnurnar betur.

Loftslagsbreytingar
Borgin þarf bæði að vinna gegn loftslagsbreytingum og laga sig að þeim. Búa þarf hafnarmannvirki og strandsvæði undir hækkandi yfirborð sjávar og veitukerfi þurfa að geta ráðið við aukna úrkomu. Ný hverfi verða þróuð með tilliti til þess að nýta affallsvatn betur og hanna hringrásarlausnir til að bregðast við áhrifum af breyttu veðurfari. Flóðavarnir verða með grænum áherslum og hannaðar þannig að þær nýtist sem borgarrými. Veitukerfið og innviðir þess verður styrkt til að draga úr álagi vegna aukinnar úrkomu og áhersla verður lögð á blágrænar ofanvatnslausnir.
Vistvæn mannvirki
Reykjavíkurborg mun fjölga kolefnishlutlausum byggingum í borginni. Í nýbyggingum og endurgerð verður í stórauknum mæli gerð krafa um sjálfbærnivottun (m.a. BREEAM) húsnæðis borgarinnar. Þá verður haldið áfram með verkefni sem hvetja aðila til þess að byggja vistvænar byggingar á borð við Re-inventing cities og Grænar þróunarlóðir.
