Kolefnisbinding og líffræðileg fjölbreytni
Reykjavík stefnir að kolefnishlutleysi ekki síðar en árið 2040. Helsta áskorunin við að ná því marki er að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á heimsvísu þarf losun að helmingast fram til ársins 2030 og helmingast aftur til 2040. Næsti áratugur þarf því að verða áratugur aðgerða í loftslagsmálum.
Hvað þarf að gera?
Á sama tíma og dregið er úr losun þarf að auka kolefnisbindingu, meðal annars með ræktun skóga og fjölbreytts gróðurs, endurheimt votlendis og stuðningi og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni. Til að undirbúa borgina fyrir áhrif loftslagsbreytinga þarf einnig að eiga sér stað aðlögun að loftslagsbreytingum, svo sem sjó- og flóðavarnir og blágrænar ofanvatnslausnir, en þær aðgerðir fara oft saman við aðgerðir til kolefnisbindingar.

Verkefnin framundan
Borgin mun á næstu árum leggja áherslu á kolefnisbindingu, auka gróður í borgarumhverfinu, fegra grænu svæðin og tengja þau með grænu neti. Græn svæði og tengsl við náttúru hafa umtalsverð jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks, stuðla að hreyfingu og styður við líffræðilega fjölbreytni.
- Áhersla er á sjálfbæra landnotkun með endurheimt votlendis og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni.
- Þétting byggðar verður einkum á áður röskuðum svæðum og þjónusta í hverfum verður í göngu- eða hjólafæri.
- Styrkja á samfelldan vef opinna svæða um allt borgarlandið m.a. með skógrækt sem tengir saman hverfi, heimili og atvinnusvæði.
- Borgin mun starfa með fyrirtækjum sem hún á aðild að og sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarinnar, að því að greiða aðgengi borgaranna að grænum svæðum sem falla undir þau.
- Gerð verður metnaðarfull skógræktaráætlun um Loftslagsskóga Reykjavíkur