Nýr borgarhluti í mótun

Ártúns­höfði og Elliða­ár­vogur

Ártúns­höfði og Elliða­ár­vogur er nýr borg­ar­hluti í mótun og eitt stærsta þróun­ar­svæði Reykja­víkur. Áætlað er að þar verði allt að átta þúsund íbúðir í full­byggðu hverfi í bland við þjón­ustu og aðra atvinnu­starf­semi.

Umhverfisvottað og grænt hverfi

Megin­á­herslur Græna plansins verða að veru­leika í þessu nýja hverfi – á Ártúns­höfða og við Elliða­árvog. Til verður þétt, umhverf­is­vottuð byggð í góðum tengslum við hágæða almenn­ings­sam­göngur. Miklir mögu­leikar eru til samgöngu­hjól­reiða, góðra lífs­gæða, uppbygg­ingar íbúða fyrir alla og síðast en ekki síst, grænt og fallegt hverfi.

Myndin sýnir Hamars­stíg milli svæðis 1 og 2.

Breyttir tímar kalla á breytta notkun

Hugmyndir um þróun Ártúns­höfða og Elliða­ár­vogs hafa lengi verið á dagskrá. Árið 2015 var haldin hugmynda­sam­keppni um þróun svæð­isins og í fram­haldi var unnið ramma­skipulag sem var samþykkt í ársbyrjun 2016. Frá þeim tíma hefur verið unnið að deili­skipu­lagi einstakra hluta svæð­isins og hefur t.d. skipulag fyrir stækkun Bryggju­hverfis til vesturs þegar verið samþykkt.

Upplýs­inga­síða skipu­lags um Ártúns­höfða og Elliða­árvog

Menningarhús við Krossmýrartorg

Borg­ar­lína mun liggja um Ártúns­höfðann og mun Krossa­mýr­ar­torg verða í hjarta hverf­isins. Við torgið verður menn­ing­arhús og fjöl­breytt verslun og þjón­usta, auk almenn­ings­garðs fyrir aftan menn­ing­ar­húsið.

Svæðisskipting fyrir Ártúnshöfða og Elliðaárvog

Síðast­liðin misseri hefur verið unnið að deili­skipu­lagstil­lögum fyrir svæðin næst þróun­arás Reykja­víkur, nánar tiltekið svæði 1 og 2. Fast­eigna­þró­un­ar­fé­lögin Klasi og Heild eiga lóðir á þessum svæðum og hafa frá árinu 2017 unnið náið með Reykja­vík­ur­borg að þróun þeirra og undir­bún­ingi uppbygg­ingar. Á svæðum 1 og 2 er gert ráð fyrir allt að 3.800 íbúðum í bland við atvinnu­starf­semi og blóm­legt borg­arlíf.