Bryggjuhverfið
Eftir að gengið var frá flutningi iðnaðarstarfsemi af svæðinu var hægt að hefjast handa við stækkun Bryggjuhverfisins. Á deiliskipulagssvæðinu næst núverandi Bryggjuhverfi munu rísa um 700 íbúðir. Bjarg og Búseti hafa þegar hafið uppbyggingu og gefin hafa verið út vilyrði fyrir lóð fyrir hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
Til viðbótar þessum áföngum verður byggt upp á landfyllingum og þar eru uppi hugmyndir um sundlaug og ýmsa afþreyingu.
Stærra Bryggjuhverfi með betri þjónustu
Með stækkun Bryggjuhverfisins er rennt stoðum undir betri þjónustu og aukið mannlíf í hverfinu.

Sundlaug við sjávarsíðuna
Á deiliskipulagssvæði 3 sem liggur við Elliðaárvog verða fjölmargir afþreyingarmöguleikar s.s. sundlaug, sjósund, kajakaðstaða og almenningssvæði fyrir afslappaða samveru.

Búseti og Bjarg byggja saman í Bryggjuhverfinu
Búseti og Bjarg íbúðafélag standa saman að uppbyggingu í Bryggjuhverfinu fyrir tilstuðlan Reykjavíkurborgar.
„Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og hafa báðir aðilar mikinn hag af,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta. Félögin byggja á Tangabryggju en þar var Björgun áður með starfsemi. Bjarni segir að staðsetningin sé frábær og ánægjulegt að sjá íbúðir taka við af gamla iðnaðarsvæðinu.

Númerasúpa - deiliskipulagssvæði og uppbyggingaráfangar
Sko! Bryggjuhverfi 4 er sama og Bryggjuhverfi III – og á því er einföld skýring. Deiliskipulagssvæði nr. 4 eins og sést hér sem hluti af rammaskipulagssvæðis Ártúnshöfða og Elliðaárvogs er stundum kallað Bryggjuhverfi III, og þá er átt við að það sé 3ji áfanginn í uppbyggingu Bryggjuhverfis. Þetta er semsagt ekki bara munur á rithætti – notkun á arabísku eða rómverski tölusetningu.

Byggt verður á landfyllingum við Elliðaárvoginn
Skipulagsáætlanir gera ráð fyrir mikilli uppbyggingu Bryggjuhverfisins, sem hluta af Ártúnshöfða og Elliðaárvogi. Á sérstakri vefsíðu má skoða þær áætlanir og fyrirhugað samráð.
