Betri samgöngur
Borgarlínan
Borgarlínan er vistvænt hraðvagnakerfi sem ekur að mestu á sérakreinum og kemst þannig tafarlaust milli helstu kjarna borgarinnar. Tíðni ferða verður há og mikið er lagt upp úr fallegri hönnun, skilvirkri þjónustu og góðu aðgengi fyrir alla. Borgarlínunni má líkja við slagæð, sem flytur fólk hratt og örugglega milli helstu kjarna höfuðborgarsvæðisins.
Legan Borgarlínu byggir á samgöngu- og þróunarásum sem eru skilgreindir í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040. Gert er ráð fyrir að meginuppbygging íbúða og þétting byggðar í borginni verði á svæðum meðfram Borgarlínunni og þróunarásnum.
Fyrsta lota Borgarlínu
Framkvæmdir við fyrstu lotu Borgarlínu hefjast á næsta ári og á þeim að ljúka að mestu árið 2023. Hún skiptist í tvo áfanga; annars vegar frá Hamraborg í Kópavogi yfir nýja Fossvogsbrú að Hlemmi og hins vegar frá Hlemmi upp á Ártúnshöfða.

Hvar mun Borgarlínan liggja?
Ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sér samning um uppbyggingu. Í kynningu er sagt frá helstu uppbyggingarverkefnunum og legu Borgarlínu frá 4:47.
Borgarlína + Strætó
Borgarlínan og Strætó munu vinna saman í einu, heildstæðu kerfi og nýtt leiðakerfi Strætó, sem nú er í vinnslu, verður jafnframt grunnur að framtíðarskipan Borgarlínunnar. Stofnleiðir Strætó verða að Borgarlínuleiðum þegar sérakreinarnar hafa verið lagðar.
