Miðborgin
Miðborg Reykjavíkur er höfuðborg allra landsmanna þar sem mætist öflugt og heilbrigt íbúasamfélag, fjölbreytt atvinnustarfsemi og menningar- og mannlíf sem endurspeglar bæði menningararf þjóðarinnar og framsækinnar og alþjóðavæddrar borgar. Í henni er gott að búa, starfa og vera gestur.
Allt á einum stað
Miðborgin er í senn miðja stjórnsýslu á Íslandi, miðja atvinnu-, verslunar- og veitingastarfsemi og söguleg, menningarleg og samfélagsleg miðja þar sem mannlífið dregur dám af sérhverjum tíma. Á undanförnum árum hefur uppgangur og uppbygging í höfuðborginni ásamt verulegri aukningu í ferðaþjónustu haft mikil áhrif á mannlíf, ásýnd og starfsemi í miðborginni og áhrifasvæði hennar. Miðborgin er enda bæði fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og elsta og fjölskrúðugasta hverfi borgarinnar þar sem íbúðabyggð og fjölbreytt atvinnustarfsemi hafa ávallt fléttast saman.

Verkefnin framundan
Á komandi árum mun miðborgin þróast áfram með tilheyrandi áhrifum á umhverfi hennar og mannlíf. Á meðal stærstu verkefna komandi ára verður þróun Laugarvegar í göngugötu allt árið, fjölgun á göngugötum í Kvosinni, uppbygging á nýju borgartorgi við Hlemm og þá mun Borgarlínan fara um Hverfisgötu og Lækjargötu.