Íbúðir og þekkingarkjarni
Skapandi þorp í Gufunesi
Gufunes er eitt áhugaverðasta þróunarsvæði landsins. Þar er unnið að þróun á skapandi þorpi þar sem saman blandast ýmis skapandi starfsemi og íbúabyggð. Á svæðinu voru áður Áburðarverksmiðjur Ríksins.
Sala byggingarréttar
Vilt þú taka þátt í uppbyggingu í Gufunesi þar sem skapandi greinar eru að festa rætur?
Reykjavíkurborg býður til sölu byggingarrétt fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi á lóðum í hjarta hverfisins á föstu verði.

Bakgrunnur
Árið 2014 auglýsti Reykjavíkurborg eftir hugmyndum að nýtingu á húsnæði á svæðinu. Í kjölfar þess voru nokkrar eignir borgarinnar seldar til fyrirtækja í skapandi greinum. Stærsta verkefnið var sala á húsnæði undir kvikmyndaver RVK Studios.
Árið 2016 hélt Reykjavíkurborg hugmyndasamkeppni um skipulag Gufunes. Það var teiknistofan Jvantspijker sem var hlutskörpust í keppninni og var stofan í kjölfarið ráðin til þess að halda utan um gerð deiliskipulags fyrir fyrsta áfanga verkefnisins. Þeirri skipulagsvinnu er lokið og er vinna hafin á öðrum deiliskipulagsáfanganum.

Helstu verkefni
Á svæðinu eru nokkur verkefni hafin og önnur í þróun. Á meðal helstu verkefna má nefna:
- RVK Studios er að byggja upp kvikmyndaver í skemmu sem nýttist áður undir starfsemi Áburðarverksmiðju ríkisins. Fyrirtækið hyggst á næstunni byggja upp höfuðstöðvar í aðliggjandi byggingu.
- Kukl sem er fyrirtæki sérhæft í tækjaleigu til kvikmyndaiðnaðarins er að byggja upp nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins.
- Þorpið vistfélag hefur hafið framkvæmdir við á íbúðum ætluðum undir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
- Fasteignaþróunarfélagið Spilda þróar íbúðir og blandaða byggð á svæðinu. Fyrstu áfangar verkefnis þeirra við Jöfursbás hefjast 2021.
- Reykjavíkurborg vinnur að gatnagerð og Veitur að lagnagerð sem er unnin í takt við uppbyggingu í hverfinu.
- Áætlað er að Íslenska gámafélagið muni flytja á athafnasvæðið við Esjumela um mitt ár 2021. Þá mun húsnæði Gámafélagsins á svæðinu færast til Reykjavíkurborgar.
- Hafnarsvæðið við Gufunes var auglýst til þróunar sem hluti af alþjóðlega verkefninu Re-inventing cities. Unnið er að úrvinnslu á umsóknum.